Hvimleiðar boðflennur á heimilum og í fyrirtækjum

Á Íslandi er að finna tvær tegundir músa, húsamús (Mus musculus) og hagamús (Apodemus sylvaticus). Húsamúsin er nátengd manninum og sækir í skjól og fæðu innandyra, en hagamúsin heldur sig að jafnaði í grónu landi en getur leitað inn í híbýli þegar kólnar eða náttúruleg fæða er af skornum skammti. Báðar tegundir geta valdið ónæði og tjóni – mengað matvæli, nagað rafmagnslagnir, einangrun og húsgögn, og skapað hættu á eldsvoða eða smiti.

Hagamús til vinstri, húsamús hægri

Dvalarstaðir og ummerki

Mýsnar finna sér gjarnan leið inn í hús í gegnum litlar sprungur og göt. Þær byggja sér hreiður í einangrun, geymslum og hornum þar sem lítið er um truflun. Einkennandi ummerki eru dökkleit músaspörð, nagmerki á umbúðum eða viði, og þrusk og tipl í veggjum og loftum þegar þær fara um, einkum að næturlagi.

Lífshættir og tjón

Mýsnar eru alætur og sækja sérstaklega í korn, fræ og brauðmeti, en naga einnig pappír, textíl og plastumbúðir. Þær fjölga sér hratt og geta stofnar því vaxið á skömmum tíma við kjöraðstæður. Mengun á matvælum og skemmdir á eignum geta haft bæði fjárhagslegar og heilsufarslegar afleiðingar – ekki síst í matvælafyrirtækjum þar sem strangar kröfur eru gerðar um hreinlæti og öryggi.

Forvarnir

Til að verjast músum er mikilvægt að:
• Loka öllum sprungum og götum í byggingum.
• Geyma matvæli í þéttum ílátum.
• Halda snyrtilegu í og við hús og fjarlægja rusl og fóðurleifar.
• Þrífa reglulega í geymslum og ónotuðum hornum.

Hvað gerir Ókindin?

Ókindin bregst fljótt og örugglega við vandamálum af völdum músa, bæði á heimilum og í fyrirtækjum. Boðið er upp á reglubundna vöktunarþjónustu með þar til gerðum safngildrum og beitustöðvum auk þess sem veitt er ráðgjöf um forvarnir og frágang til að fyrirbyggja endurkomu. Fagleg nálgun Ókindarinnar er til þess fallin að:
• Tryggja örugga útrýmingu með réttum gildrum og varnaefnum.
• Fyrirbyggja að gæludýr eða börn bíði skaða. 

Í fyrirtækjaþjónustu Ókindarinnar er lögð sérstök áhersla á að uppfylla kröfur heilbrigðiseftirlits og HACCP staðla. Með umhverfisvænum vinnuaðferðum, rafrænu eftirliti og nákvæmu gæðaeftirliti er tryggt að músavandamál hafi hvorki áhrif á rekstur né ímynd viðskiptavina.

Ókindin tryggir öruggt og hreint umhverfi – hvort sem er á heimilum eða í atvinnurekstri.