Óboðinn matargestur

Húsflugan (Musca domestica) er ein útbreiddasta flugnategund heims — sannur heimsborgari sem fylgir manninum hvert sem hann fer. Hún er dökkgráleit eða svarbrún á lit, um 6–8 mm löng, með fjórar dökkar langrákir á frambolnum og stór rauð augu sem veita flugunni víðsýni og viðbragðsflýti. Karlflugur hafa augu sem nánast mætast á höfðinu, en hjá kvendýrum er lengra á milli. Hún er sífellt á ferli, eltir lykt og ljós og kemur sér undan höggum með ótrúlegri fimi.

Dvalarstaðir og ummerki

Húsflugur sækja í alls kyns lífrænan úrgang og blautt eða rotnandi efni. Þær finnast við gripahús, sorphauga, loðdýrabú og í matvælageiranum þar sem lífrænt efni safnast fyrir. Innandyra sjást þær oft á gluggakistum, borðum eða nálægt eldhúsi og matarsvæðum. Ummerki um húsflugur geta verið litlir dökkir blettir eftir saur þeirra, eggjaklasar í lífrænum úrgangi og eins sjást þær iðulega á flugi í kringum ljósgjafa og fæðuuppsprettur.

Lífshættir og lífsferill

Húsflugan gengur í gegnum fjögur þroskastig: egg – lirfu – púpu – fullvaxta flugu. Kvendýr verpir allt að 500 eggjum á ævi sinni, oft í skít, hræjum eða öðrum rotnandi lífrænum leifum. Við kjöraðstæður geta eggin klakist út á nokkrum klukkustundum og ný fluga verður fullvaxta á innan við tveimur vikum. Lirfurnar nærast á lífrænum leifum og breytast í púpur sem síðan ala af sér fullorðnar flugur.

Fullorðnar húsflugur lifa í 2–4 vikur, en við hagstætt hitastig (25–30°C) getur lífsferillinn verið mjög hraður og stofnar því margfaldast á stuttum tíma. Þær geta lifað af veturinn innanhúss og fjölgað sér þar allt árið.

Húsflugan á öllum stigum lífsferils: Eggjaklasi, lirfa, púpur og fullvaxta fluga.
Hættur og tjón

Húsflugur eru ekki bara hvimleiðar, heldur einnig hættulegar með tilliti til sjúkdómavarna. Þær geta borið með sér yfir 100 mismunandi tegundir sýkla, þar á meðal Salmonella, E. coli og Shigella, auk sníkjudýra og veira. Þær sækja í skít, úrgang og rotnandi fæðu, en fara síðan yfir á mat, borð og áhöld í eldhúsum. Þær spýta meltingarvökva á fæðugjafa til að leysa upp áður en þær sjúga hana upp og geta þannig mengað matvæli á örskotsstundu. Þær geta þannig verið milliliður í smiti sem veldur matareitrun, niðurgangi og öðrum sjúkdómum.

Til sveita, þar sem búfé er haldið getur fjöldi húsflugna orðið slíkur að þær valdi verulegum óþægindum fyrir bæði fólk og dýr.

Forvarnir

Til að halda húsflugum í skefjum er mikilvægt að viðhafa góðar hreinlætisvenjur og takmarka aðgang þeirra að fæðu og mögulegum uppeldisstöðvum lirfanna:
• Geyma sorp og lífrænan úrgang í lokuðum ílátum og tæma reglulega.
• Þrífa vel í eldhúsum, sorpgeymslum og gripahúsum.
• Forðast að láta leifar af mat og drykk safnast fyrir.
• Koma flugnaneti fyrir í gluggum og dyrakörmum, sérstaklega yfir sumartímann.

Hvað gerir Ókindin?

Ef húsflugur ná fótfestu er vandinn sjaldan leystur með hefðbundnum húsráðum. Stefán Gaukur Rafnsson hjá Ókindinni framkvæmir nákvæma úttekt á aðstæðum, greinir uppeldisstaði og velur viðeigandi aðgerðir til útrýmingar. Meðferðin:
• Er örugg fyrir fólk og gæludýr.
• Byggir á samþættri nálgun sem sameinar hreinlætisráðstafanir, rafflugnabana, límspjöld, varnarefni og fleiri markvissar meðferðir.
• Tryggir langtíma vörn með reglulegu eftirliti og ráðgjöf.

Með faglegum nálgunum er hægt að halda húsflugum fjarri á öruggan hátt, koma í veg fyrir endurkomu og tryggja hreint og heilsusamlegt umhverfi — hvort sem er á heimilum eða í atvinnurekstri.